Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 19:18:57 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[19:18]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er nákvæmlega það sem við hefðum þurft að vera að ræða um af niðurstöðum sáttanefndarinnar. Við hefðum þurft að fara yfir það hversu langa nýtingarsamninga við ætluðum að gera, hversu lengi þeir ættu að gilda, hvernig yrði með endurnýjunarákvæði og slíkt. Það er ljóst að það er allt í uppnámi miðað við þau frumvörp sem hér liggja á borðinu. Það er engan veginn ásættanlegt.

Það kostar 4–7 milljarða að kaupa alvörufrystitogara til landsins og það er orðið tímabært að fara að skoða endurnýjun á skipaflota okkar. Við skulum átta okkur á því. Ef við ætlum ekki að dragast aftur úr í samkeppninni gagnvart erlendum þjóðum, þar sem við höfum haft forustuhlutverk, þá er það orðið tímabært. Og hv. þm. Björn Valur Gíslason veit það manna best, skipstjóri til margra ára, að það er orðið tímabært að skoða íslenska skipaflotann. Það verður ekki hægt. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig aðstæður verða hjá fyrirtækjum þegar fer að líða á þennan tíma að þurfa að standa í stórum fjárfestingum og framlengingin kannski óviss. Það verður að finna þessa fínu línu þar sem hvati er til fjárfestinga til lengri tíma fyrir stór og smá fyrirtæki, hvort sem það eru fjölskyldufyrirtæki eða stærri útgerðir.