Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 19:26:06 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[19:26]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Eins og ég sagði áðan, virðulegi forseti, þá held ég að það sé grundvallaratriði að við horfum til aukinnar fjölbreytni í atvinnulífi úti á landsbyggðinni. Við höfum öll tækifæri til þess og sérstaklega með nýtingu á orkuauðlindum okkar. Hv. þingmaður ræddi það áðan hvort ekki væri skynsamlegra að nýta þau atvinnutæki sem eru til staðar í stað þess að fara í nýjar fjárfestingar í greininni. Það er alveg ljóst að afkastageta þeirra tækja sem fyrir eru í greininni og þeirra sjómanna sem eru í greininni er mikil og mun meiri en aflinn er í dag. Við getum gert miklu betri og stærri og meiri hluti.

Það er útilokað mál að ætla að skilja sérstaklega nýliðana, litlu og meðalstóru útgerðirnar sem eru stóri stabbinn í þeim fjölda sem var að kaupa rétt fyrir hrun, eftir með skuldir eins og ríkisstjórnarflokkarnir ætla að gera. Þeir ætla að skilja þessar fjölskyldur á Vestfjörðum, á Norðurlandi, fyrir austan og sunnan, á Suðurnesjum og hér á höfuðborgarsvæðinu, (Forseti hringir.) skilja þær eftir með skuldirnar einar og hirða þetta og fara að úthluta þessu eftir einhverjum persónulegum geðþótta og valdi sjávarútvegsráðherra.