Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 19:27:37 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[19:27]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er pínlegt að skerða þurfi tíma í andsvörum milli stjórnar og stjórnarandstöðu af því að þingmenn stjórnarandstöðunnar eru svo uppteknir af því að hrósa hverjir öðrum í andsvörum, en það verða ekki aðrir til að hrósa málflutningi þeirra.

Ég vildi kannski vegna þeirrar miklu áherslu sem hv. þingmaður leggur á sátt um málið spyrja hann af hverju Sjálfstæðisflokkinn varðaði ekkert um neina sátt í aldarfjórðung þó að nær öll þjóðin væri ósátt við það kerfi sem þá var og af hverju flokkurinn tali núna um sátt.

Auðvitað hefðu stjórnarflokkarnir getað farið fyrningarleiðina. Útvegurinn stendur með geysisterkri afkomu sinni undir 5% innköllun á ári og því að verðið ráðist á markaði eins og í öðrum atvinnugreinum. En sannarlega hafa stjórnarflokkarnir stigið fram til sáttar í málinu. Hér er búið að mæta hverju sjónarmiðinu á fætur öðru, byggðasjónarmiðum, sjónarmiðum um langtímasamninga, um hófleg gjöld o.s.frv. Það var eðlilegt að menn segðust vilja fara sáttaleiðina en það sem máli skiptir er hvað felst í henni. Ég vil spyrja hv. þingmann hvað hann telji að sé að því að gera samninga til 15 ára eins og hér er lagt til og inna hann eftir því vegna þess að hann tók þó undir það að greinin, sem samkvæmt árgreiðsluaðferð Hagstofunnar skilaði 45 milljarða hagnaði árið 2009, geti staðið undir nokkuð hærra veiðigjaldi en hún hefur gert til þessa. Fróðlegt væri að heyra frá hv. þingmanni hvað hann telji eðlilegt að sjávarútvegurinn skili hlutfallslega eða í krónum miklum auðlindagjöldum í ríkissjóð af 45 milljarða hagnaði.