Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 21:48:19 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:48]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á að óska hv. þm. Þór Saari til hamingju með þennan árangur að hafa náð að mæla fyrir frumvarpi sem enn er ekki komið á dagskrá þingsins.

Ég ætla í andsvari mínu að tengja hins vegar spurningu mína til hv. þingmanns þeirri umræðu sem hefur átt sér stað hérna. Það er mjög algengt í umræðu um fiskveiðistjórnarmál að tengja þau byggðamálum. Ég hef tekið eftir því að í greinargerð með því frumvarpi sem hv. þingmaður mælti fyrir áðan er því lýst yfir að ef þetta frumvarp verði samþykkt muni hin óhagkvæma þróun snúast við, að fólksflótti frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins stöðvaðist.

Spurning mín til hv. þingmanns er einfaldlega sú: Trúir hv. þingmaður því að þessi fullyrðing sé sönn og rétt? Dettur einhverjum í hug að byggð á Melrakkasléttu muni blómgast til stórra muna þó að þangað kæmu 100 tonn meira af þorski til að veiða? Ég hef þá trú (Forseti hringir.) að það sé miklu frekar framþróun í t.d. heilbrigðismálum og menntamálum sem ráði miklu meira um búsetu fólks á Íslandi í dag heldur en 1 eða 2 tonn af þorski.