Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 22:03:30 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:03]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla að höggva í sama knérunn og hv. þm. Íris Róbertsdóttir og segja að það væri ákaflega hentugt að vita hvenær þingfundi lýkur. Ég er búinn að vera hér síðan kl. 8 í morgun. Ég tel það svo sem ekkert eftir mér. Ég á að mæta á fund kl. 8 í fyrramálið og í ljósi vökulaganna væri gott að vita á hvaða róli það verður um það bil sem við munum hætta þingfundi.

Það er algjörlega ljóst að málin sem við ræðum hér eru brýn og áríðandi og það er líka áríðandi að vera með fullri rænu meðan maður ræðir þau. Við sjáum að það er að draga af þingmönnum og ég held að rétt væri að fara að slútta þessu hvað úr hverju.