Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 22:29:30 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:29]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Ég get tekið undir með honum um það hversu mikilvægt er að við leitum víðtækrar sáttar um grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Hér hafa verið rædd í belg og biðu bæði frumvörpin sem liggja frammi þó að einungis annað þeirra sé á dagskrá. En við höfum fyrir framan okkur ályktun stjórnarfundar Landssambands smábátaeigenda og líka frá stjórnarfundi í Farmanna- og fiskimannasambandinu sem sagði um þetta frumvarp að það væri óravegur frá því samkomulagi sem varð niðurstaða svokallaðrar sáttanefndar. Hvað sagði stjórnarfundur Landssambands smábátaeigenda? Að frumvarpið væri samið án minnstu aðkomu þeirra sem starfa í sjávarútvegi Sú vinnutilhögun er harla ólíkleg til að skapa sátt um þá sem þar eiga hlut að máli. Þetta er allt á sömu bókina lært, allir þeir sem vísað er til að haft hafi verið samráð við fordæma þau vinnubrögð sem hér hafa verið viðhöfð (Forseti hringir.) þar sem súperþingmannahópur stjórnarflokkanna lokaði sig inni í átta mánuði og þetta er afurðin. Það er enginn sáttur við þetta. Það er því ríkisstjórnin sem skapar ósættið.