Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 22:55:18 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:55]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Ég vil byrja á því að inna hv. þingmann eftir því hvort hann sé almennt þeirrar skoðunar að nefndir sem framkvæmdarvaldið skipar til að fjalla um ákveðin mál eigi að setja lög og ramma um grundvallaratvinnugreinar í landinu eða hvort hann telji það þrátt fyrir allt vera hlutverk þjóðkjörinna fulltrúa hér á Alþingi að gera það og hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar í þessu tilfelli.

Ég er sammála hv. þingmanni um tekjur ríkissjóðs. Það fer best á því að þær renni í ríkissjóð, það sé síðan ákveðið í þinginu frá ári til árs hvaða verkefni eru brýn og kalla á fjárútlát.

Ég tók eftir því sem hv. þingmaður sagði bæði í ræðu sinni og fyrr í umræðunni um að úthlutun tuga tonna í tilteknar byggðir yrði ekki til þess að bjarga þar ástandinu og ekki ætti að segja fólki ósatt um það, að mörgu leyti gæti skipt meira máli hvað við gerum í menntamálum, heilbrigðismálum, eflingu annarra atvinnugreina eða þjónustu og samgöngum á þeim stöðum.

Ég spyr því hv. þingmann hvort hann telji rétt að endurskoða byggðakvótann, sem hefur einmitt það fyrirkomulag að úthluta tugum tonna hingað og þangað, og hvort hann telji hann ná þeim markmiðum sem til er ætlast og hvort best væri að taka þann arð sem hægt er að hafa af auðlindinni í ríkissjóð og beita síðan þaðan til eflingar byggða á fleiri sviðum en bara því sem að þessu lýtur.