Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 23:40:42 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:40]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður vék að því í ræðu sinni áðan að hann skildi alveg þörfina fyrir byggðakvóta og byggðatengdar aðgerðir. Mér finnst það í sjálfu sér gott.

Varðandi það að fiskveiðistjórnarkerfið verði ekki að aðlaga sig breytingum í lífríkinu tel ég einmitt mjög mikilvægt að svo sé. Tökum makrílinn, hann var ekki hér í þessum mæli í kringum landið fyrir nokkrum árum en nú er hann kominn í gríðarlega miklum mæli upp að ströndum landsins. Við ætlum okkur þar tiltekinn hlut. Evrópusambandið og Norðmenn segja: Við eigum makrílinn þó að hann sé lagður af stað til Íslands og komi hingað og sé hér mánuðum saman og nærist hér og fitni. Ég segi: Nei, hann er kominn hingað og við eigum líka hlutdeild í honum. Þetta dýnamíska kerfi á (Forseti hringir.) þess vegna ekki síður við um makrílinn en skötuselinn. Evrópusambandið og Noregur eiga ekki makrílinn allan. (Forseti hringir.) Við eigum hann líka meðan hann er í íslenskri lögsögu og við munum veiða hann þar. [Kliður í þingsal.]