Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 23:42:03 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:42]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Hæstv. ráðherra. Við skulum svo sannarlega veiða makrílinn. (Gripið fram í: Já.) Við eigum nýtingarrétt á honum, en það hefur reyndar ekkert með þetta frumvarp að gera. [Hlátur í þingsal.] Nú veiðist síldin mjög í Grundarfirði, ætlar ráðherrann að flytja heimildirnar þangað? (Sjútvrh.: Já.) Hann ætlar að gera það? (Sjútvrh.: … já.) Já, það vekur athygli mína að nú standi til að færa til aflahlutdeild í síld til Grundarfjarðar vegna þess að hún hefur veiðst þar í auknum mæli. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Því er algjörlega ósvarað sem ég hef hér gefið ráðherranum ítrekað tækifæri til að koma inn á, hvernig eigi að koma í veg fyrir stöðuga aukningu smábáta við strandveiðarnar. Ég hef áhyggjur af því og mér finnst að þingheimur þurfi að svara því. Ég sakna þess að ekki sé tekið á því í frumvarpinu vegna þess að þetta er fyrirsjáanlegt vandamál sem þingið hefur áður þurft að eiga við í tengslum við það skipulag sem hér ríkti. (Forseti hringir.) Og það er svo fjölmargt annað sem ráðherrann skýtur sér ávallt undan að svara og fer bara að ræða um Ólympíuleikana, makrílveiðar (Gripið fram í.) eða eitthvað annað.