Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 12:41:52 (0)

139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[12:41]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Forseti vill biðja hv. þingmenn um að gefa ræðumanni hljóð sem kominn er í ræðustól og hefur fengið orðið.)

Virðulegi forseti. Það virðist enn þá vera til staðar ágreiningur um fundarstjórn forseta en ég held bara áfram. Það sem mér fannst mjög áhugavert þegar ég hlustaði á umræðuna í gær var hve oft kom fram í orðum manna um vinnu starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða að myndast hefði einhvers konar sátt í þeim hópi, að menn hefðu komist að einhverri sameiginlegri niðurstöðu, þar sem nánast virtist liggja í orðunum að hægt hefði verið að leggja fram hér fullsköpuð frumvörp til laga um breytingar á stjórn fiskveiða. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Forseti vill biðja hv. þingmenn að halda fundi utan þingsalar. Hér fer fram þingfundur, og hv. þm. Eygló Harðardóttir hefur orðið.)

Og ég eins og væntanlega flestir þingmenn las þá fréttir og fletti aðeins í skýrslunni og sá svo sem að það voru ákveðnar meginlínur sem menn höfðu náð einhverri samstöðu um. En þegar þessi frumvörp til laga um breytingar á stjórn fiskveiða voru lögð fram ákvað ég að lesa aftur þessa skýrslu og fara betur í gegnum hana. Það er mitt mat eftir þann lestur að það sé engin sátt í hinni svokölluðu sáttaskýrslu. Það kemur náttúrlega fram í þeim texta sem er í skýrslunni að meiri hluti nefndarinnar vildi þetta, ákveðnir fulltrúar voru á þessari skoðun, menn náðu ekki fullkominni sátt um þetta. Það sem mér fannst líka áhugavert þegar ég las sérálit fulltrúa stjórnarflokkanna var hversu þeir voru að mörgu leyti líka ósáttir við þær meginlínur sem komu fram í helstu niðurstöðum skýrslunnar.

Menn þurfa að horfast í augu við það að sú leið sem stjórnarflokkarnir börðust fyrir, fyrningarleiðin, samkvæmt þeim undirstarfshópum sem unnu með starfshópum um endurskoðunina, mundi einfaldlega, eins og kemur fram í skýrslunni, ganga frá 30–40% starfandi fyrirtækja. Þeir urðu því í bókun sinni að bakka frá þeirri stefnu sem þeir höfðu gefið út í kosningaefni sínu og talað fyrir gagnvart kjósendum sínum.

Það kemur líka fram í bókunum stjórnarandstöðuflokkanna að þeir eru heldur ekki fullkomlega sáttir við það sem kemur þarna fram. Ef maður skoðar síðan líka bókun t.d. Farmanna- og fiskimannasambandsins leggja þeir megináherslu á helstu kröfu sína um að allur fiskur fari á markað til að tryggja eðlilega og gagnsæja verðmyndun á fiski þannig að sjómenn geti treyst því að þeir séu að fá „rétt verð“ fyrir afurðir sínar.

Ég tel að þegar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fékk þessa skýrslu, niðurstöðu þessa starfshóps, hafi verkefni hans ekki verið neitt sérstaklega einfalt. Hann þurfti þá að koma fram með frumvörp sem sættu eða kæmu einhvern veginn til móts við — mér datt í hug að þetta væri kannski svona svipað og með jólasveininn sem fær langan óskalista frá börnunum um hvað þau vilji fá í jólagjöf — menn um hvað þeir vildu fá inn í frumvarpið og hann þurfti einhvern veginn að troða þessu öllu í einn stóran pakka. (Gripið fram í.)

Það er kannski ekkert óeðlilegt að í staðinn fyrir að koma með einn stóran pakka til að gleðja okkur öll eða gera okkur öll óhamingjusöm komi hann með þetta litla frumvarp. Ég veit ekki, en ég hefði kannski talið mun betra að hann hefði bara lagt fram heildarpakkann í staðinn fyrir að koma með ákveðnar breytingar hér sem eru ekki fullkomlega í samræmi við t.d. helstu meginniðurstöður nefndarinnar. Eins og það að menn eru sammála um að það sem eigi að fara í sérstakar ívilnanir eigi ekki lengur að vera mælt í lestum eða magni heldur vera ákveðið hlutfall þannig að þegar skerðing er þurfi líka að skerða þessa ívilnanapotta þar sem verið er að koma til móts við ákveðin atvinnuleg, byggðaleg og samfélagsleg sjónarmið, alveg eins og í stóra kerfinu. Ein af þeim athugasemdum sem ég hef t.d. varðandi þetta frumvarp er sú að ég hefði talið eðlilegt við þessa breytingu að í staðinn fyrir að leggja til að ráðherra fái hér aukamagn til að úthluta væri talað um það í prósentum frekar en í tonnum.

Það var líka áhugavert í gær að hlusta á hv. þm. Kristján Möller fara í gegnum stefnu Framsóknarflokksins sem var samþykkt á síðasta flokksþingi. Hann skautaði hins vegar yfir hluta af stefnunni þannig að ég ætlaði að fá að fara aðeins í gegnum það hvað varðar strandveiðarnar. Það var þannig að við samþykktum tillögur ungra framsóknarmanna um strandveiðar. Ungir framsóknarmenn komu með mjög róttækar hugmyndir inn á flokksþingið og það náðist ákveðin framsóknarniðurstaða um þær þar sem við reyndum að sætta tillögur sem komu frá sjávarútvegshópnum, sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson stýrði, og þær hugmyndir sem ungir framsóknarmenn höfðu um stjórn fiskveiða. Það sem m.a. var tekið inn af hugmyndum þeirra var að við ættum að fara að líta á strandveiðarnar sem leið til nýliðunar. Þeir lögðu til að til þeirra skyldi ráðstafað 3,5–7% af heildaraflamarki í bolfiski og úthlutun til svæða yrði miðuð við fjölda báta á hverju svæði umfram það ákveðna fasta, t.d. 500 tonn. Landinu yrði áfram skipt upp í fjögur svæði eftir landshlutum. Aflanum yrði dreift á báta í stað daga innan svæðis eftir að skráningu til veiða er lokið 1. september ár hvert, reglum um sóknardaga verði aflétt og bátum þannig gert kleift að veiða þann afla sem þeir fá úthlutað hvenær ársins sem er. Í lok fiskveiðiárs verði ónýttum heimildum í kerfinu dreift á þá báta sem veiddu sínar heimildir og bætt við heimildir næsta árs.

Þessar hugmyndir varðandi nýliðunina eru þannig að bátar með kvóta umfram 50 þorskígildistonn fá ekki strandveiðiheimildir. Réttur til strandveiða rýrnar í hlutfalli við keyptan nýtingarrétt báta og hlutdeild strandveiðiheimilda rýrnar þannig um 2% fyrir hvert tonn sem keypt er af heimildum. Bát með 25 tonna kvóta er því heimilt að veiða 50% af úthlutuðum strandveiðiheimildum og þegar hann er kominn upp í 50 tonn skal hann skila strandveiðileyfi sínu til ríkisins, enda er það orðið óvirkt og leyfinu yrði þá endurúthlutað. Hugmyndin með þessu er sú að til yrði hvati fyrir þá sem reka strandveiðibáta til að kaupa sig inn í stærra kerfið og þar með hleypa nýjum aðilum inn í strandveiðikerfið. Leyfum verði úthlutað út árið og óheimilt að selja eða flytja til leyfi nema skila þeim til ríkisins.

Sambærileg regla mætti eiga við þá sem selja kvóta. Það hefur auðvitað verið mikil umræða um að hér sé verið að opna leið fyrir menn sem hafa selt sig út úr kerfinu og það hefur líka verið mikil umræða um atvinnuréttindi. Hugmynd þeirra er þannig að þá gæti aðili sem selt hefur heimildir ekki fullnýtt strandveiðileyfi sitt nema t.d. að fimm árum liðnum frá sölu heimilda. Á hverju ári mundi rétturinn þá aukast um 20% Tveimur árum frá sölu heimilda mundi réttur til strandveiða vera 40%, á fjórum árum 80% og að fimm árum liðnum væri hann orðinn 100%.

Þetta er hugmynd sem ég mundi gjarnan vilja að menn skoðuðu í vinnu nefndarinnar, hvort hægt sé að sameina þetta að einhverju leyti. Stór hluti af gagnrýninni sem verið hefur á núverandi kerfi — þó að maður hafi heyrt miklar ánægjuraddir með það líka, kannski ekki endilega í mínu kjördæmi en víðs vegar annars staðar á landinu — hafa verið þessar maraþonveiðar og það sé í rauninni mismunur á aðstæðum manna á milli svæða út af landfræðilegum aðstæðum. Síðan er líka þáttur sem þeir nefna, að vísu ekki hér sérstaklega en mig minnir endilega að tekið hafi verið á því í stóra frumvarpinu, að menn þurfi að vera útgerðarmenn á sínum eigin bát hvað þetta varðar. (Gripið fram í.) Er það í þessu? Já. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Forseti vill spyrja hv. þingmann í ljósi þess að nú eru að hefjast þingflokksfundir hvort þingmaðurinn vilji vera svo góð og gera nú hlé á máli sínu þar til að loknum þingflokksfundum.)

Ég mundi þá vilja spyrja virðulegan forseta, þar sem töluverðar tafir urðu í upphafi ræðu minnar vegna annarra funda hér í salnum, hvort ég fengi þá einhverja viðbót á þann tíma sem ég á eftir.

(Forseti (ÁI): Tímamæling fer líka alltaf fram á borði forseta.)