Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 14:11:06 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[14:11]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (frh.):

Virðulegi forseti. Í ræðu minni var ég eiginlega byrjuð á að fara í gegnum afstöðu mína eða þann skilning sem ég hef lagt í niðurstöðu skýrslu starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða, auk þess sem ég hafði aðeins rætt um tillögur okkar framsóknarmanna um strandveiðar.

Varðandi 1. gr. tel ég þá breytingu sem kemur fram í d-lið hennar mjög jákvæða, um að eigandi fiskiskips skal vera lögskráður á skipið. Þarna er verið að koma til móts við þá hugmyndafræði sem strandveiðin á að byggja á.

2. gr. er nánast samhljóða, get ég ekki betur séð, frumvarpi því sem hv. þingmenn Einar K. Guðfinnsson, Ásbjörn Óttarsson og Gunnar Bragi Sveinsson fluttu á síðasta löggjafarþingi. Markmið þess var að setja fram tillögu um sanngjarnara fyrirkomulag tilfærslna innan kerfisins vegna ýmissa jöfnunaraðgerða, ívilnana og uppbóta. Þar var lagt upp með að miða útreikninga á tilfærslum á grundvelli heildarþorskígilda en ekki á grundvelli úthlutana í þeim fjórum fisktegundum sem nú er miðað við. Flutningsmenn sögðu í því frumvarpi að núverandi fyrirkomulag leiði til að kvótaskerðing skipa verði mjög mismunandi. Skip sem eru hlutfallslega með stóran hluta aflaheimilda sinna í þeim fjórum tilgreindu tegundum verða hlutfallslega fyrir mestri skerðingu en skip sem hafa á hinn bóginn einkanlega úthlutaðan kvóta í öðrum tegundum sæta minni skerðingu eða hreinlega alls engri.

Spyrja má þá hvort þetta, sérstaklega hvað varðar skerðingu í aflaheimildum sem viðkomandi útgerð hefur ekki, gangi upp þegar innleitt verður nýtt kerfi. Það er í raun það sem ég veit að útgerðarmenn hafa velt svolítið fyrir sér. Það er því mjög mikilvægt að nefndin skoði þessa tillögu vel og sérstaklega áhrifin á mismunandi svæði. Það er það sem ég veit að menn hafa verið að horfa til, að þetta komi mismunandi illa við mismunandi fyrirtæki. Ég held að mjög mikilvægt sé að horfa líka heildstætt á áhrifin á landið í heildina.

Í 3. gr. eru lagðar til ákveðnar breytingar á fyrirkomulagi byggðakvóta. Í stefnu okkar framsóknarmanna er lögð áhersla á að í nýju framtíðarfyrirkomulagi verði byggðaívilnun tengd við fiskvinnslu. Það er ekki gert í þessari tillögu. Talað er um að ráðherra fái heimild í reglugerð til að setja almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Þó að það séu tengingar hér, ákvæði um að þeim sé skylt að landa til vinnslu ákveðnu magni, þá viljum við að það sé skoðað frekar að horfa til ívilnana í gegnum fiskvinnsluna. Aflaheimildum yrði þá fyrst og fremst úthlutað til fiskverkenda þar sem það á við og fiskvinnslurnar mundu svo semja við einstakar útgerðir um veiðar.

Mér finnst þetta vera mjög áhugaverð hugsun. Þær rannsóknir sem ég hef kynnt mér hafa sýnt að störf í landi, eða fiskvinnsla, hafa haft mun meiri áhrif á byggðaþróun en endilega hlutfall af aflaheimildum. Ég tel að heimabyggð mín, Vestmannaeyjar, sé kannski einna besta dæmið einmitt um þetta. Veiðiheimildir sem er úthlutað á báta án tengsla við fiskvinnslu í viðkomandi sjávarbyggð geta svo endað í vinnslu hvar sem er á landinu eða jafnvel verið skipað beint út. Reynt er að koma til móts við þetta hérna, en ég tel að nefndin ætti að skoða hvort það sé eitthvað sem við ættum frekar að horfa til.

Í 6. gr. er skipting veiðigjaldsins útfærð. Í stefnu framsóknarmanna leggjum við til að hlutir fari til nýsköpunar, rannsókna og markaðsmála innan greinarinnar sjálfrar. Ég held að það sé eitt af þeim ákvæðum sem við erum hvað sáttust við, flokksmenn. Í sjávarútvegsstefnu okkar er áherslan á nýsköpun, við viljum að stutt verði við nýsköpun. Það hefur verið svona frasi, stundum er verið að tala um frasana hérna, að ekki verði til mikið af nýjum störfum í hefðbundnum sjávarútvegi eða vinnslu. Þá er náttúrlega mjög mikilvægt að við reynum að búa til ný störf. Þess vegna leggjum við þá áherslu á að hluti fari til nýsköpunar, rannsókna og markaðsmála innan greinarinnar sjálfrar. Ég mundi vilja bæta við að það yrði tengt því að sú vinna, sem væri þá nýsköpunarverkefni eða rannsókna- og markaðsmál, fari fram eða hafi tengingu við landsbyggðina. Hluti rynni til landsvæðisins sem veiðigjaldið verður til í, t.d. til atvinnuþróunarfélaga innan viðkomandi svæðis, og hluti fari í ríkissjóð.

Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að 75% fari beint í ríkissjóð og 25% verði ráðstafað á vegum sveitarfélaga. Miða skal við aflaverðmæti alls landaðs afla í landshlutunum sjö næstliðin 15 fiskveiðiár. Frá því skal draga frá vinnslu á sjó. Svolítil umræða hefur verið um þetta ákvæði en ég hef ekki mótað mér afstöðu til þess.

Ýmsir stjórnarliðar hafa hins vegar gagnrýnt þetta mjög harkalega. Það eru náttúrlega mjög harðorðar umsagnir sem komu frá fjármálaráðuneytinu um þetta. Ég vil taka undir það sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kom með ábendingu um, annars vegar ákvæði 3. gr. laga um þjóðlendur þar sem segir, með leyfi forseta:

„Tekjum af leyfum til nýtingar lands skv. 2. mgr. skal varið til landbóta, umsjónar, eftirlits og sambærilegra verkefna innan þjóðlendna, … Tekjum af leyfum sem sveitarstjórn veitir skv. 3. mgr. skal varið til hliðstæðra verkefna innan þeirrar þjóðlendu sem leyfið tekur til. Sveitarstjórn skal árlega gera forsætisráðherra grein fyrir ráðstöfun fjárins.“

Þarna höfum við ákveðna fyrirmynd um að heimilt sé með lögum sem við höfum sett að fjármunir fari þá aftur til þeirra svæða sem viðkomandi auðlind er. Hv. þingmaður benti einnig á að íbúar á landsbyggðinni greiða jafnmikið í skatta og aðrir en þurfa hins vegar að sætta sig við það að lengra er að sækja opinbera þjónustu eða hún er einfaldlega lítil sem engin. Íbúar sjávarbyggða hafa bent á að meiri hluta eða meginþorra allrar opinberrar stjórnsýslu sem varðar sjávarútveginn er að finna á höfuðborgarsvæðinu, þar með talið sjávarútvegsráðuneytið, Hafrannsóknastofnun, Fiskistofu og Landhelgisgæsluna.

Ef niðurstaða nefndarinnar verður sú að ekki er hægt að marka tekjur með þeim hætti sem hér segir mundi ég gjarnan vilja að nefndin skoðaði hvort væri hægt að nota Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að skipta veiðigjaldinu með tilliti til sjávarbyggðanna og byggðaþróunar.

Að lokum, þó að ég hafi lítinn tíma, eina sekúndu, vil ég (Forseti hringir.) tala aðeins um 5. gr. Þar tel ég að sé mjög mikilvægt að hafa í huga ályktun okkar framsóknarmanna um að veiðigjaldið skal vera hóflegt, það skal vera (Forseti hringir.) tengt afkomu greinarinnar. Og sú hagræna úttekt sem hefur verið boðuð þarf að skipta mjög miklu máli varðandi endanlega afstöðu sem við (Forseti hringir.) framsóknarmenn munum taka til þessarar greinar.