Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 14:19:01 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[14:19]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður velti fyrir sér hvort raunveruleg sátt hafi orðið í skýrslu starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Já, það var sátt. Þar er vísað til meirihlutaálits en þess er að geta að 18 manns sátu í nefndinni og 16 okkar komumst að sameiginlegri niðurstöðu og við segjum í nefndaráliti okkar, með leyfi virðulegs forseta:

„Meiri hluti starfshópsins telur að þær tillögur sem hópurinn gerir nú til breytinga og endurskoðunar á lögum um stjórn fiskveiða sé grunnur að lausn þeirra stóru ágreiningsefna sem verið hafa uppi hér á landi um langt skeið.“

Síðan nefndi hv. þingmaður áhrif fyrningarleiðarinnar. Ég ætla að leiðrétta tölur sem hv. þingmaður fór með. Það var ekki þannig að 30–40% fyrirtækjanna færu á hausinn. Í athugun Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri var niðurstaðan sú að 20 ára innköllun fiskveiðiheimilda, þ.e. stefna ríkisstjórnarinnar, mundi leiða til gjaldþrots sjávarútvegsfyrirtækja sem ráða yfir 40–50% af aflaheimildum. Auðvitað hlutu menn að beygja sig fyrir þeim staðreyndum. Auðvitað hlutu stjórnarflokkarnir að falla frá hugmyndum sínum í þeim efnum, þetta sýndi hvað þær voru illa ígrundaðar. Þeir urðu þess vegna að fallast (Forseti hringir.) á það með okkur hinum að skynsamlegast væri að fara samningaleiðina.