Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 14:25:52 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[14:25]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Ég vil benda á tvö atriði í stefnu framsóknarmanna varðandi útfærsluna í potti 1. Þar er talað um að gera nýtingarsamninga til u.þ.b. 20 ára. Ein af hugmyndunum sem voru ræddar var að gerðir yrðu nýtingarsamningar til mismunandi fjölda ára en það var líka lögð áhersla á það meðal flokksmanna okkar sem tóku þátt í umræðunni að það væri eitthvað sem við gætum útfært frekar í meðförum þingsins.

Síðan kemur líka fram í stefnu okkar að taka þarf upp varanlegt fyrirkomulag sem tryggir hreyfingu á aflaheimildum í framtíðinni. Ég held að þegar við förum að ræða um stærra frumvarpið sé mjög mikilvægt að við fáum svör um hvað gerist þegar þessi lög falla úr gildi. Ég er þegar búin að fá upplýsingar frá einum stuðningsmanni stjórnarinnar þar sem hann virðist greinilega gera ráð fyrir að aflaheimildir verði boðnar upp þegar samningarnir renna út og þegar lögin falla úr gildi. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þingið taki sér góðan tíma í að ræða þetta svo menn viti í hvað stefni.