Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 14:28:05 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[14:28]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hugmyndin var einmitt sú að menn hefðu tækifæri til að byggja sig upp. Ég geri ráð fyrir því, í ljósi þessarar setningar hérna, að tekið verði upp einhvers konar varanlegt fyrirkomulag sem tryggi hreyfingu á aflaheimildum í framtíðinni þannig að menn hafi tækifæri til að byggja sig upp innan strandveiðikerfisins en ekki á grundvelli þessara maraþonveiða. Síðan verði að hluta til til aflaheimildir sem menn geta nálgast í gegnum ríkið. Hvernig það yrði nákvæmlega útfært hlýtur að vera, að ég held, hlutverk hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að vinna frekar að á næsta löggjafarþingi.

Hvað varðar fjölgunina og hagkvæmnina þá er það nokkuð sem ég hef sjálf velt svolítið mikið fyrir mér. Mér skilst að haft hafi verið eftir einum sérfræðingnum sem kom fyrir nefndina að langhagkvæmast væri náttúrlega að við mundum bara hafa tvö skip eða tvö fyrirtæki sem sæju um að veiða allan aflann ef við ætluðum að ná hámarkshagkvæmni. Það væri svo sem líka hægt að pakka okkur öllum saman og flytja okkur kannski á Jótlandsskaga eins og okkur var boðið einu sinni, því það væri miklu hagkvæmara. (Forseti hringir.) En við höfum samt valið að búa hér og taka kostum og göllum þess. Ég held að við þurfum að hafa í huga, að minnsta kosti að mínu mati, að atvinna skiptir (Forseti hringir.) mestu máli — vinnan er grundvöllur allrar velferðar. (TÞH: Þú veiðir ekki eina og hálfa milljón …)