Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 14:39:03 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[14:39]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér með ætla ég að fá að leggja til að við köllum þessa nefnd endurskoðunarnefnd en ekki sáttanefnd. Hún lagði til ákveðnar tillögur. Hún lagði til samningaleiðina. Það endurspeglast meðal annars í stefnu okkar framsóknarmanna og ég tel að það endurspeglist líka í frumvarpinu. Það er verið að tala um að gera þessa samninga sem eru þessi grunnhugmyndafræði.

Ég vil líka fá að benda hérna á stefnu okkar um það hvernig við sjáum fyrir okkur að pottur 2 stækki. Það er alltaf þessi mikla áhersla hjá okkur á nýsköpun og nýliðun, það er grunnhugmyndafræðin varðandi pottana. Við viljum ekki fyrst og fremst líta á þetta sem einhver samfélagsleg úrræði, heldur að við séum mögulega að horfa þarna til framtíðar. Þar tölum við líka um að stefnt sé að því að pottur 2 vaxi enn frekar en um þessi 3,5% sem má segja að hann sé í í dag fyrir utan stóra kerfið, þó aldrei meira en 15% í einstökum tegundum með tilliti til stofnstærðaraukningar og reynslu af úthlutunum í pott 2. (Forseti hringir.) Þetta á ekki að vera sjálfkrafa eins og er í núverandi frumvarpi.