Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 14:56:16 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[14:56]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það kann vel að vera rétt hjá hv. þingmanni að ef menn hefðu borið gæfu til að setja ákvæði í stjórnarskrá á sínum tíma sem treysti og festi sameign þjóðarinnar á auðlindinni í hafinu og jafnóðum að leggja á ríflegt auðlindagjald hefði það deyft andstöðuna við núverandi kerfi þannig að menn hefðu getað sætt sig við það. En menn fóru ekki þá leið. Ég ætla ekki að rifja það upp fyrir hv. þingmanni hvaða flokkur reisti nú stærstu garðana í vegi þess að ákvæðið yrði tekið inn í stjórnarskrá, en ég gæti gert það.

Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni um að það þarf að ríkja eins mikil sátt um sjávarútveginn og hægt er og það þarf að búa honum eins mikið öryggi og hægt er. Og það versta við þetta frumvarp er vitaskuld sú staðreynd að í kringum það ríkir mikill ófriður.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur hann ekki að það væri mögulegt að ná sátt um meginstrauma og þætti frumvarpsins á þeim grundvelli sem kemur fram í ályktunum landsfundar Framsóknarflokksins? Telur ekki hv. þingmaður (Forseti hringir.) að þar sé kominn ákveðinn grunnur að samnefnara sem hægt væri að vinna út frá?