Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 15:00:05 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:00]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Því fer fjarri. Við áttum fulltrúa í sáttanefndinni og hann lagði sitt af mörkum, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Einar Kristinn Guðfinnsson. Þar kemur afstaða okkar berlega í ljós. Við vorum reiðubúin að gera þetta. Ég hefði óskað þess að formaður Samfylkingar væri með sama sáttatón og hæstv. utanríkisráðherra. Það er eins og þau ræði ekki saman. (Utanrrh.: Ég hef …) Ég hefði óskað þess að hæstv. utanríkisráðherra hefði meiri áhrif á forsætisráðherra en raun ber vitni (Gripið fram í.) því að hann er sem betur fer ekki að tala niður þá atvinnugrein sem tengist sjávarútveginum eins og hæstv. forsætisráðherra gerir alla jafna.

Við höfum rifjað upp söguna og það er hægt að benda á ýmislegt. Ég hef sagt að við sjálfstæðismenn séum tilbúin til að setja auðlindaákvæðið inn í stjórnarskrá. Við erum tilbúin til að endurskoða veiðileyfagjaldið gegn því að það skapist meiri festa, að við drögum úr óvissu þannig að við getum horft á sjávarútveginn til lengri tíma en einungis til 7, 9 eða 13 ára í senn.