Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 15:01:18 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:01]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég hef nú hlustað á allar ræður sem haldnar hafa verið um þetta mál síðan í gær og ég held að ég verði að segja að sú ræða sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hélt áðan hafi verið sú versta af mörgum. Líklega hefur hún verið að tala um rangt frumvarp því það frumvarp sem hér um ræðir var minnst til umræðu hjá hv. þingmanni. Hún byrjaði reyndar ræðu sína á því að tala um að við byggjum við besta kerfi í heimi í sjávarútvegi. Það er nú bara þannig að þegar ég heyri fólk tala um það, eftir það sem á undan er gengið, að eitthvað sé best, að við búum við besta kerfi í heimi, sjálfbært kerfi, þá spyr ég: Er það svo að fiskstofnarnir við Ísland hafi verið nýttir með sjálfbærum hætti? Er það þannig? Það hefur þá farið fram hjá okkur sem höfum stundað þessa atvinnugrein í gegnum árin. Það er langur vegur frá því. Er það svo að útgerð á Íslandi hafi verið sjálfbær? Er hún það? Ég er ekki viss um að allir taki undir það.

„Pólitísk stýring ráðherra“, sagði hv. þingmaður. Skiptir máli hvaða ráðherra það er? Þau atriði sem hv. þingmaður nefndi varðandi byggðatengingar, línuívilnun og bætur og fleira sem pólitísk sátt er um að vera með í kerfinu er pólitísk stýring. Það eru pólitískar áherslur, það hefur alltaf verið þannig og mun líklega alla tíð verða þannig. Það getur vel verið að við séum ósammála um að hafa þetta ekki, (Forseti hringir.) en þannig er það og svo lengi sem við höfum það verður það pólitískt.