Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 15:08:28 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Ég undirstrika þá kannski að ég hef lagt megináherslu á þau tvö atriði sem hafa verið hvað mesta bitbeinið, pólitíska bitbeinið. Hv. þm. Björn Valur Gíslason kom inn á það áðan að alltaf á fjögurra ára fresti er þetta ýft upp aftur. Af hverju? Af því það hafi verið pólitískir hagsmunir að reyna að hafa þessar ýfingar og dýfingar hverju sinni í staðinn fyrir að reyna að klára málið á heildstæðum grunni með því að setja auðlindaákvæði inn í stjórnarskrá, með því að endurskoða veiðileyfagjaldið en líka þetta sem kemur fram í bókun Sjálfstæðisflokksins. Við studdum það heils hugar sem fulltrúi okkar, Einar Kristinn Guðfinnsson, skrifaði undir í sáttanefndinni að gerðir verði nýtingarsamningar við útgerðina en ekki til þeirra 9 eða 15 ára eftir atvikum fyrir útgerðina, því að við teljum að líta eigi á þetta heildstætt m.a. eins og verið er að gera hjá sem starfa innan orkugeirans. Við verðum að skoða nýtingu auðlindanna heildstætt og okkur finnst með ólíkindum að það er alltaf verið að taka sjávarútveginn út fyrir sviga og reyna að meðhöndla hann með öðrum hætti.