Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 15:11:03 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:11]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta voru engir fordómar gagnvart konum en menn verða að geta tekið dæmi, raunveruleg dæmi, án þess að menn hrökkvi í einhvern kynjavarnargír. Þetta eru einfaldlega staðreyndir úti á markaði sem fólk stendur frammi fyrir og það þarf að leysa þetta. Ég þarf að fá svar við þessu frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Það er að gerast nákvæmlega í strandveiðunum sem við sjálfstæðismenn töluðum um. Þetta eru ólympískar veiðar. Menn veiða meira og meira á skemmri tíma. Hvað gerist? Þrýstingur eykst á að fá aukna úthlutun. Þá vil ég fá svar frá öllum sem tala um að vera svo góðir við allt og alla: Hvaðan á að taka þá úthlutun? Á að taka hana t.d. frá HB Granda? Á að taka hana frá Hafnarfirði? Á að taka það frá Vestmannaeyjum? Þetta er allt saman ein heild, þegar á að auka á einum stað þarf að taka af öðrum. Stjórnmálamenn sem eru talsmenn þessa vilja ekki svara slíkum óþægilegum, pólitískum spurningum. (Gripið fram í.) Ég segi: Þetta er algjört ráðherraræðisfrumvarp. Þetta snýst um það. Þetta frumvarp snýst ekki um annað en ráðherraræði. Þetta snýst ekki um að auka arðbærni og hagkvæmni í sjávarútvegi að mínu mati, (Forseti hringir.) þvert á móti.