Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 15:12:31 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:12]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Með þeim tillögum sem hæstv. ríkisstjórn er að leggja fram er öll sátt um veiðileyfagjald út í veður og vind, til fjandans farin, virðulegi forseti. Ég harma það að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir státi af því að Sjálfstæðisflokkurinn sé jafnvel til í að auka veiðileyfagjaldið. Það er ekki hægt að tala þannig fyrir hönd sjálfstæðismanna, mikils fjölda sjálfstæðismanna, sérstaklega í sjávarplássum landsins, vegna þess að veiðileyfagjaldið er árás á sjávarplássin, árás á dreifbýlið. Það er til þess að hlaða undir öryggi og festu á höfuðborgarsvæðinu og safna þar peningum, milliliðum og braski, tekið af sjávarplássum landsins. Menn eiga því að standa fast í ístaðinu og leyfa ekki tvísköttun á eina grein. Við leyfum ekki tvísköttun á eina grein eða margsköttun. Það skal þá eitt yfir alla ganga. Það er enginn að tala um það í raun og veru.