Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 15:13:42 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil hv. þm. Árna Johnsen mætavel þegar hann varar við því að segja að við séum ekki andsnúin breytingu á veiðileyfagjaldinu, auðlindagjaldinu. Ég skil hann mætavel, af því það er stórhættulegt með þá ríkisstjórn sem nú situr. En það er engu að síður þannig að við sjálfstæðismenn höfum talað á þessum nótum og verið tilbúin í að endurskoða auðlindagjaldið. Þannig er það og hefur verið.

Ég mótmæli því sérstaklega að þetta sé til að hlaða undir suðvesturhornið. Það var akkúrat þetta sem ég talaði um í ræðu minni, ég vil ekki að menn nálgist þetta mál með þeim hætti að þetta séu alltaf þessar andstæður landsbyggðin/höfuðborgarsvæðið. Þá verð ég að segja: Ætla menn að fara að taka undir með hæstv. forsætisráðherra í þeirri vegferð að reyna að sundra þjóðinni í staðinn fyrir að sameina hana? Þarf þjóðin alltaf að bíða eftir íþróttaleikjum, eins og að 21 árs landsliðið í fótbolta karla sem er að fara að spila eftir tíu daga sameini þjóðina? Ekki gerir ríkisstjórnin það. Það eru íþróttirnar frekar en ríkisstjórnin sem sameina þjóðina.