Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 15:17:37 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:17]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er erfitt að ræða málefnalega um hlut sem er ófullburða og á fyrstu stigum fósturs. Það er í rauninni ekki raunhæft og ekki hefð fyrir því á Alþingi. Yfirleitt eru málefni nokkuð þroskuð þegar þau koma hingað inn og þá eiga þingmenn að taka til starfa og kryfja til mergjar kosti og galla. Þannig er því ekki varið nú. Þetta er allt í lausu lofti, allt bögglauppboð, engin vissa, engin klár markmið, engir útreikningar á hagkvæmni eða rök fyrir því sem menn eru að stilla upp. Þess vegna verður maður að reyna að skilja hæstv. ríkisstjórn út frá öðrum forsendum. Bíddu — hvað er í gangi eiginlega? Þetta er það sem fólk segir í dag, virðulegur forseti, hvað er í gangi? Hvað er að þessari ríkisstjórn? Þetta fólk bætir ekki við „hæstvirtri“ eins og okkur ber skylda til.

Ef maður reynir að kryfja parta úr þessu þá er hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, kominn í hlutverk Spartverja í trójuhestinum. Hann er kominn undir pils, undir fald forsætisráðherra sem situr á svikráðum að margra mati við þjóðina, og vill rústa íslenskum sjávarútvegi og Íslandi um leið til að auðvelda markaðssetningu Samfylkingar á inngöngu í Evrópusambandið. Þetta er gyllingin á húninum til að Evrópusambandið geti gleypt Íslandsfiskinn með sporði og hrygg.

Það er því miður þannig að hinn ágæti drengur, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, dólar að því er virðist undir fölskum formerkjum að búa í haginn fyrir Samfylkinguna vegna þess að það mun létta róðurinn fyrir hana ef slátrað verður íslenska innmatnum og íslenska samfélaginu.

Hæstv. forsætisráðherra fer á kústsköftum sínum um landið, þvers og kruss yfir byggðir, fólk og fyrirtæki, sveiflar svipum og kylfum, egnir til ófriðar út og suður, upplausnar og illsku. Þetta er mikið alvörumál. Reiptogið er ekki tveir endar, það eru tveir meginendar og svo eru ótal endar út frá þeim í allt aðrar áttir. Þetta er ríkisstjórn Íslands, hæstvirt.

Hæstv. forsætisráðherra hefur riðið á vaðið í þessum efnum þótt hlutverk hennar ætti að vera hlutverk sáttasemjara, að miðla til sátta meðan þjóðin stendur í stórræðum í stað þess að egna til ófriðar og gera allt vitlaust. Það er nú svo að reynslan sýnir að hæstv. forsætisráðherra kann það best að egna til ófriðar með offorsi og skyndiyfirlýsingum svo gustar af. Það er svo slæmt að þegar maður gengur, virðulegi forseti, nálægt hæstv. forsætisráðherra þá fær maður kalbletti. Það er vont og illt að fá kalbletti á sálina. Það á ekki að vera boðlegt, síst af öllu af hálfu forsætisráðherra Íslands.

Það er erfitt að skilgreina í hvaða gildru hæstv. sjávarútvegsráðherra er kominn. Helst er að líkja því við trójuhestinn. Sagan er einföld. París nam Helenu fögru á brott til Tróju þótt hún væri gift Menelás. Spartverjar sátu í tíu ár um Tróju. Jóhanna hefur lengi setið um Ísland til að koma því inn í Evrópubandalagið. Hún hefur umkringt stóran hluta í ferlinu, staðið í vegi fyrir breytingum, þróun, þroska og framförum.

Á tíunda ári umsátursins um Tróju drap Akkilles Hektor, son Trójukonungs. Í kjölfarið hefndi París þess og felldi Akkilles. Ég skal ekki skilgreina hvar hælar, hinir veiku akkillesarhælar sjávarútvegsráðherra liggja, hvort þeir liggja aðallega í forsætisráðherra eða fjármálaráðherra. En hæstv. ráðherra er meðreiðarmaður í þessum efnum. Það er óvenjulegt af hæstv. ráðherra, Jóni Bjarnasyni, og óeðlilegt.

Eftir þessi tíu ár drógu Spartverjar sig frá Tróju með landher og sjóher en skildu eftir gjöf, trójuhestinn, gerður af tré, gjöf til Trójumanna. Þeir féllu í gildruna, drógu hann inn fyrir borgarmúrana. Um nóttina fóru stríðsmenn Spartverja úr hestbúknum, opnuðu borgarhliðin og fjandinn var laus. Það er í þetta sem stefnir með frumvörpum ríkisstjórnarinnar um sjávarútvegsmálin. Það stefnir í upplausn, ringulreið og veikari stöðu samfélagsins. Það er svo skammt hugsað vegna þess að ef menn hugsa ekki um nýtinguna og hagkvæmnina í þessum efnum situr landsbyggðin fyrst eftir. Hverjir sitja síðan eftir? Auðvitað höfuðborgarsvæðið sjálft, því að það þarf gjaldeyri, það þarf blóðgjöf til þess að velferðarkerfið, þjónustukerfið, forréttindin, sem á margan hátt eru í höfuðborginni, geti haldið velli. Það gengur ekki ef búið er að slátra því sem gefur 60% af þjóðartekjunum, veiðum, vinnslu og markaðssetningunni sem hefur fleygt fram á ótrúlegan hátt á tiltölulega skömmum tíma og gefur okkur hæsta verð í heiminum fyrir það hráefni sem kemur frá Íslandi.

Það segir reyndar í framhaldi af gjöfinni frá Spartverjum, það er gamalt orðtak, að menn skuli varast gjafir Grikkja. Það er nákvæmlega það sem við eigum að varast. Við skulum varast gylliboð og gjafir ríkisstjórnarinnar sem er með sýndarmennsku og falskar vonir í alls konar hlutum um gull og græna skóga í skjóli þess að fórna eðlilegum rekstri sjávarútvegs á Íslandi.

Hv. þm. Helgi Hjörvar sagði í gærkvöldi að sjálfstæðismenn væru í hagsmunagæslu dauðans. Í hagsmunagæslu dauðans fyrir útgerðarmennina. Þessi borgarkrabbi, hv. þm. Helgi Hjörvar, er að ráðast á útgerðarmenn Íslands og kallar þá dauðann. Af hverju réðst hann ekki líka á sjómenn um leið? Af hverju réðst hann ekki á þá 500 sjómenn sem fórust við Vestmannaeyjar á síðustu 100 árum? Hvað er maðurinn að fara? Væri ekki rétt að maðurinn setti sig inn í eðli, möguleika og umhverfi sjávarútvegsins sem hann veit ekki spor um, ekki gramm, en blaðrar og blaðrar með bros á vör. Þetta er svo slepjulegt, virðulegi forseti, það getur gert mann brjálaðan. Það er ekkert öðruvísi. Er ég þó manna þolinmóðastur í flestu. (Gripið fram í: Þolinmóður en samt reiður.) Nei, hv. þingmaður, ég er ekki reiður, ég er grimmur. Og það er ástæða til þess.

Menn hafa haft á orði í samfélaginu að notuð séu stór orð á Alþingi. Það er ekki nýtt. Það er ekki nýtt fyrir okkur sem höfum verið hér lengi en það er kannski aldrei meiri ástæða til þess en nú, vegna þess að vitleysan er svo gríðarleg, gífurleg, lausungin, dugleysið, metnaðarleysið, fárið, samkomulagsleysið og stefnuleysið, að hér hljóti að falla stór orð. Það er eðlilegt miðað við eðli íslenskrar tungu.

Sjálfstæðismenn eru í hagsmunagæslu fyrir Ísland, sjálfstætt velferðarsamfélag. Það er það sem við erum að verja og sækja. Sem betur fer erum við ekki einir flokka um það. Það er grundvallaratriðið.

Þegar hv. þm. Helgi Hjörvar sagði í umræðunni að í einhverri skoðanakönnun væru 7% Íslendinga óánægðir með kerfið, fiskveiðikerfið, þá er það ekkert óeðlilegt. Það verður aldrei ein allsherjarsátt og margt þarf að laga, breyta og bæta en það er allt annað en að stilla því þannig að gjöreyðileggja það, rústa og slátra því.

Það koma líka í ljós í ræðu hv. þm. Kristjáns Möllers í gærkvöldi sem sagði að menn hér á þingi hefðu upplifað miklar breytingar á frumvörpum síðastliðinn vetur. Hver er ástæðan fyrir því? Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst sú að frumvörpin koma ófullburða inn, nánast hugmyndir, en ekki neitt sem heitir líkami eða staðreyndir. Þá veltir maður fyrir sér, hvað er það sem háir ríkisstjórninni mest? Það er einhver samstaða um að ná tökum á því að stjórna landinu en ekki bara samstaða um að stjórna því ekki.

Meðgöngutími músa er rúmar tvær vikur. Meðgöngutími hjá rottum er 20–22 dagar. Meðgöngutími hjá langreyði er 11 mánuðir. Meðgöngutími hjá fílum, Afríkufílum, er 22 mánuðir. Ríkisstjórnin er að baksa með hlutina. Hún fær vel undirbúin plögg um sáttaleið í sjávarútvegsstjórn en hún fer að tæta það í sundur í staðinn fyrir að láta það þróast og vaxa á eðlilegan hátt. Notar það sem bitbein milli stjórnarflokkanna og eftir átta mánuði loksins kemur eitthvað sem er kannski um viku, tveggja vikna gamalt fóstur. Ég er ekki að tala um mýs. Þetta er vandamálið sem við búum við, virðulegi forseti. Þetta er vandamálið.

Það er engin spurning að menn vilja allir að þjóðin eigi auðlindina en vanda þarf mjög allt orðalag í því til að það standi fyrir alþjóðalögum svo enginn deili þar um. Sjómenn, útgerðarmenn, hafa keypt kvótann til þess að hafa rétt sinn til að veiða hann. Allar ríkisstjórnir síðustu 25 ára hafa lofað því að þegar skerðingar verði fái útgerðarmenn, sem hafa hert ólina, þær til baka. Það er allt farið til fjandans í tíð núverandi ríkisstjórnar. Öllum loforðum, öllum viðmiðunum er hent fyrir borð, spúlað út um lenslúguna eins og um drasl væri að ræða, loforðum fyrri ríkisstjórna.

Útgerðarmenn eru nefnilega, virðulegi forseti, á margan hátt mest þjóðnýttasta atvinnugrein Íslands. Þar eru miklar skuldir. Þar er mikil drift sem gefur okkur blóðgjöf inn í samfélagið. Hver talar um að það séu margir útgerðarmenn sem berist á? Það er undantekning ef þeir eru til. En það talar enginn um að fjármagnið sem liggur á lausu í samfélaginu sé hjá eigendum fjármagnsins, í bönkunum. Það er hjá lögfræðingum, endurskoðendum, fasteignabröskurum. Það er ekki hjá útgerðinni, það er ekki þar. Þar eru skuldirnar, þar er atvinnusköpunin sem býr yfir mikilli ábyrgð og festu en fyrst og fremst harðsækin staða eins og hún er.