Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 15:33:11 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:33]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi ríkisstjórn þarf virkilega að smúla út fyrir borðstokkinn valdastefnu fyrrverandi ríkisstjórna í sjávarútvegsmálum, ekki veitir af.

Ég vil gjarnan spyrja hv. þingmann hvort hann sé hlynntur einkaframtakinu af því að einkaframtak strandveiða er birtingarmynd þess í sinni smæstu mynd, þ.e. að einstaklingur hafi möguleika á að skapa sér vinnu.

Ég vil einnig spyrja hv. þingmann hvort hann styðji atvinnusköpun á landsbyggðinni. Í þessu frumvarpi eru 3 þús. tonn lögð til strandveiða sem munu skapa fjölda fólks atvinnu á landsbyggðinni. Styður hv. þingmaður atvinnusköpun á landsbyggðinni?

Svo spyr ég hv. þingmann hvort honum finnist núverandi kvótakerfi hafa tryggt uppbyggingu og atvinnusköpun í sjávarbyggðum og vil ég að hann rökstyðji það.

Einnig spyr ég hv. þingmann hvort hann telji að arður af sjávarauðlindinni renni nægilega mikið til sjávarbyggðanna í dag og hvort hann styðji það að við látum arðinn af sjávarauðlindinni renna af sanngirni til sjávarbyggðanna eins og frumvarpið felur í sér.

Svo spyr ég hv. þingmann hvort hann telji að núverandi ríkisstjórn eigi að framfylgja stefnu fyrri ríkisstjórna með markaðshyggju eða hvort hún eigi að fara eftir eigin stefnu sem byggist á jafnræði við úthlutun og aðgengi að aflaheimildum.