Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 15:55:48 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:55]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hennar og ræðuna. Ég vildi bara nýta þetta tækifæri til að lýsa yfir skoðun minni á framlögðu frumvarpi og frumvörpum. Mér finnst við vera að ræða þau bæði í einu að einhverju leyti. Hér er um að ræða þarflega kerfisbreytingu. Hér er verið að innleiða nýtingarsamninga. Hér er verið að opna fyrir nýliðun. Hér er verið að skerða framsalið og breyta því. Hér er verið að taka á þessu mannréttindaákvæði.

Ég mundi vilja sjá aðrar og frekari breytingar á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Fyrst vil ég staldra við innheimtuna á veiðigjaldinu og útdeilingu á því. Ég tel að hér sé um að ræða of margar reglugerðarheimildir hjá ráðherra. Ég set líka spurningu við lengdina á nýtingarsamningunum. Ég tel að við eigum að nálgast lengd nýtingarsamninga með svipuðum hætti og við gerum í öðrum auðlindum. Þá vil ég til dæmis minnast á jarðhita og vatnsföll þar sem nýtingarsamningurinn tekur mið af afskriftatíma fjárfestingarinnar. Að öllum nýtingarsamningum ljúki á 23 árum gengur í raun og veru ekki og þess vegna ættum við frekar að nálgast verkefnið þannig að nýtingarsamningarnir væru mislangir og menn hefðu til dæmis helminginn til langs tíma, en svo keyptu menn sér á markaði nýtingarsamninga til skemmri tíma. Þannig getum við tryggt rekstraröryggi þeirra fyrirtækja sem starfa í þessari atvinnugrein. Ég held að sé mjög mikilvægt fyrir okkur að við nálgumst þetta verkefni með þeim hætti að við tryggjum öryggi greinarinnar, enda eru traust fyrirtæki á sviði sjávarútvegsmála mjög mikilvæg fyrir okkur öll. Það er allra síst ætlun þeirra sem standa á bak við þetta frumvarp að vega að undirstöðu þeirra.

Ég held að mestu máli skipti fyrir almenning í þessu landi að arðinum af auðlindinni sé jafnara skipt og þess vegna set ég stórt spurningarmerki við það hvernig veiðigjaldinu er útdeilt. Aðalatriðið er kannski ekki hvernig hver nýtir, heldur hitt að arðinum sé jafnt skipt á milli landsmanna með betri hætti en gert er í núverandi (Forseti hringir.) fiskveiðistjórnarkerfi og lagt er til í þessu frumvarpi.