Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 16:09:23 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:09]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Írisi Róbertsdóttur fyrir ágæta ræðu. Það sem mig langar aðeins að ræða við þingmanninn eru upphafs- og kannski lokaorð hennar í sambandi við sáttina og markmið og vinnu stjórnarliða — staðreyndin er sú að þetta er búið að vera hjá stjórnarflokkunum í allan vetur, síðan í september. Telur hún líklegt að hægt sé að ná sátt á grundvelli þess sem stjórnarflokkarnir hafa unnið? Þingmaðurinn svaraði því kannski svolítið í ræðu sinni eða ýjaði að því að það virtist vera ákveðinn hópur í stjórnarliðinu sem notaði þetta til að efla ófrið í landinu og efna til ófriðar við atvinnugreinina. Maður veltir þá fyrir sér ástæðunum fyrir því, að mati þingmannsins, að sú leið sé valin. Einstakt tækifæri virtist blasa við í kjölfarið á samráðshópnum þegar fyrir lá almenn yfirlýsing um sátt sem virtist ekki hafa stefnt í í aðdraganda þess og kannski ekki í upphafi vinnu þess hóps þar sem ýmislegt kom upp á. Það var tímamótastund, það virtist mögulegt að ná fram sátt sem síðar mundi koma fram í formi frumvarps sem gæti orðið að lögum og þjóðin gæti orðið sátt við.

Því langar mig að heyra álit þingmannsins á því hvort hún telji líklegt að ná sátt og ef ekki, hverjar séu ástæður fyrir því að málið sé komið eins og það er komið.