Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 16:11:34 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:11]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór aðeins yfir þetta áðan eins og kom fram í máli hv. þingmanns. Ég er að vonast eftir sátt og við gerum það öll. Við vonumst öll eftir því að um þessa atvinnugrein ríki sátt. Við höfum ekki efni á öðru en að standa saman um sjávarútveginn. Af því að ég er, ég ætla ekki að segja einföld, ég er þannig að upplagi að ég vil trúa á það besta, að allt það besta gangi eftir, og þegar ég sá að það hafði komið lending út úr þessu starfi sem stóð lengi vildi ég trúa því að það gæti komist á sátt.

Þegar á reynir, þegar þarf að klára og þegar þarf að standa við gefin loforð, þegar athafnir eiga að fylgja orðum, virðist þessi ríkisstjórn ekki klára sig af málinu. Það er bara þannig, því miður. Því miður virðist hún ekki klára og ég er svartsýn. Til þess að einhver sátt næðist þyrfti ríkisstjórnin að draga bæði þessi frumvörp til baka, vinna þetta betur í sumar og koma með nýtt frumvarp 1. október. Ég held að einhver sátt gæti skapast ef það yrði byggt á því sem lá fyrir, því sem um var rætt, því sem kom út úr sáttanefndinni. Það þarf að fara í útfærsluatriði með hagsmunaaðilum, öllum hagsmunaaðilum. Þeir þurfa allir að koma að því að útfæra þetta. Það er ekki hægt að koma með frumvörp inn í þingið sem eru þannig að stjórn og stjórnarandstaða séu sammála um að sumt sé í lagi og sumt í ólagi en ekki sammála um neitt samt.