Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 16:21:58 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:21]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að handstýringarvald ráðherra er mikið í þeim frumvörpum sem við tökum hér til umræðu í dag og næstu daga. Þau völd sjávarútvegsráðherra eru gríðarlega mikil í núgildandi lögum og ekki kvartaði hv. þm. Einar K. Guðfinnsson þegar hann gegndi sjálfur embætti hæstv. sjávarútvegsráðherra og beitti alræðisvaldi sínu ótæpilega, t.d. þegar hann leyfði hvalveiðar korteri áður en hann lokaði dyrunum á eftir sér.

Ég kem hingað til að vekja athygli á og minna hv. þingmann á skýrslu sem flokksbróðir hans, bæjarstjórnarmaður vestur á Ísafirði, Gísli Halldórsson, stóð fyrir og vann að um reynsluna af strandveiðunum sumarið 2009 þegar þær voru alveg nýjar af nálinni. Skýrsluhöfundur kemst að þeirri niðurstöðu að samfélagsleg áhrif strandveiðanna það sumar, meðan einungis voru til ráðstöfunar 4 þús. tonn til strandveiðanna, hafi verið ótvírætt jákvæð, markmiðin með veiðunum hafi að mörgu leyti náðst, nýliðun hafi átt sér stað og veiðarnar náð því markmiði að hleypa lífi í minni sjávarbyggðir landsins.

Þarna vorum við aðeins að ræða um 4 þús. tonn til strandveiða. Núna erum við hins vegar að ræða verulega aukningu þannig að potturinn verði eitthvað í kringum 9 þús. tonn eins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi. Dregur hv. þingmaður í efa niðurstöðu hinna jákvæðu vísbendinga sem skýrslan gefur um áhrifin af strandveiðunum á samfélögin, m.a. fyrir vestan, að þau geti náð fram að ganga miðað við þá aukningu sem er í kortunum núna?