Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 16:24:06 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:24]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að það er töluvert handstýringarvald í þeim lögum sem núna gilda um stjórn fiskveiða. Þróunin var hins vegar sú fram á árið 2009 að við vorum fremur að reyna að draga úr þessu handstýringarvaldi og það var um það mjög mikil krafa frá Alþingi. Ég hygg að framkvæmdarvaldið hafi verið að bregðast við því að Alþingi gerði kröfu til þess að valdið sem væri þar gríðarlega mikið yrði fært inn til löggjafans sem er auðvitað miklu eðlilegra í þessu sambandi. Það dugir ekki að benda á að það sé handstýringarvald í núgildandi lögum og koma síðan fram með frumvarp upp á sjö greinar þar sem hæstv. ráðherra fær alræðisvald í mjög stórum málum í 30 liðum til að hafa áhrif á það hvernig hann framfylgir lögunum og fær með þessum hætti nánast lagasetningarvald vegna þess að hann fær sér hér ígildi slíks valds í mörgum greinum eins og ég nefndi aðeins áðan.

Auðvitað er hægt að segja sem svo að þegar bætt er við aflaheimildum, hvort sem það eru 4 þús. tonn, 6 þús. tonn eins og núna í strandveiðunum eða 9 þús. tonn eins og ætlunin er að hafa, hefur það áhrif í þeim byggðarlögum þar sem þessar strandveiðar eru. En þetta er ekki bara spurning um magnið, þetta er líka spurningin um dreifinguna. Ef ég man það rétt, og nú leiðréttir hv. þingmaður mig ef ég fer rangt með, vorum við hv. þingmaður sammála um að þessi skipting á milli veiðisvæða væri mjög ósanngjörn þegar þessi mál voru rædd á síðasta ári. Það breytir kannski ekki miklu fyrir þann sem má veiða fimm daga í mánuði, eins og á við um A-svæðið, þó að bætt sé við 50% vegna þess að þá fá þeirra útgerðarmenn væntanlega ekki að veiða nema sjö og hálfan dag ef allt fer sem horfir. Það er ekki bara spurningin um þetta magn, það verður líka að horfa á þetta í þessu sambandi.

Síðan skulum við velta fyrir okkur hvort menn hafi ekki tekið eftir því sem kom fram í opinberum upplýsingum, að því miður varð lítill hluti þessa afla eftir í (Forseti hringir.) byggðunum okkar á Vestfjörðum til vinnslu, heldur fór annað. Þar með (Forseti hringir.) dró úr þessum samfélagslegu áhrifum.