Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 16:27:55 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:27]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vandinn við þetta strandveiðifyrirkomulag er sá sem hefur blasað við. Eins og hv. þingmaður rakti áðan var farið af stað með 4 þús. tonna heimildir. Síðan var ákveðið að auka þær upp í 6 þús. tonn. Þá var hins vegar tekin sú ákvörðun að um leið og þessu yrði úthlutað til strandveiðibátanna yrðu aflamarksbátarnir og krókaaflamarksbátarnir, sem eru smábátar, skertir um þessi 6 þús. tonn þannig að nettóáhrifin fyrir byggðarlögin væru sem þessu nemur minni. Auðvitað var dreifingin eitthvað mismunandi milli byggðarlaga en það breytir ekki því að sjávarbyggðirnar sem menn tala um í einu slengi urðu þá fyrir 6 þús. tonna skerðingu sem fór til strandveiðanna þannig að nettóniðurstaðan varð núll frá sjónarhóli sjávarbyggðanna í heild þó að hin landfræðilega dreifing hafi verið mismunandi ef við berum til dæmis saman strandveiðarnar annars vegar og krókaaflamarkið hins vegar.

Það blasir við að þegar 6 þús. tonn eru tekin út úr aflamarki og krókaaflamarki skerðast aflaheimildir smábáta og annarra báta sem eru í þorski um þetta en aukast í strandveiðunum. Síðan er í þessu frumvarpi gráu bætt ofan á svart. Auðvitað fagna ég því að við hv. þingmaður erum sammála í sambandi við svæðaskiptinguna, en hæstv. ráðherra bætir gráu ofan á svart. Til viðbótar við þær heimildir sem hann hefur til að ráðskast með þessa svæðaskiptingu eins og hann vill er þessu líka breytt þannig að nú getur hann ráðskast með tímabilið eins og hann vill. Hann þarf ekki einu sinni að styðjast við mánuðina.

Ég lýsti því yfir þegar þetta strandveiðifrumvarp var fyrst rætt að ég teldi að það væri langsamlega eðlilegast að landið væri eitt svæði og strandveiðiútgerðarmennirnir tækju ákvörðun um það hvaðan þeir reru og þá gerðu þeir það með þeim hætti sem þeir teldu skynsamlegast. Þá væri búinn til einhvers konar hagræðingar- og hagkvæmnihvati inn í þetta kerfi. Síðan hefur formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar líka kastað fram annarri hugmynd, en vandinn er sá að við erum þessarar skoðunar, hv. varaformaður nefndarinnar og (Forseti hringir.) ég sem óbreyttur nefndarmaður, en einn maður ræður, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og hann lýsti því yfir í gær að hann væri á móti því að breyta þessari skiptingu. (Gripið fram í.)