Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 16:32:26 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:32]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta voru áhugaverðar spurningar.

Aðeins um strandveiðarnar: Þetta er farið að verða dálítið sérkennilegt ef við förum yfir söguna. Þegar frumvarpið var upphaflega lagt fram var gert ráð fyrir að 4 þús. tonn færu í strandveiðar. Helmingurinn af þeim var tekinn úr byggðapottunum þannig að þeir voru sérstaklega skertir en síðan var 2 þús. tonnum bætt við þannig að niðurstaðan varð 4 þús. tonn. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sá að sér í næstu atrennu og ákvað að skerða ekki byggðapottana, enda hafði hann fengið mikil mótmæli við því. Þá var tekin sú ákvörðun að deila út 6 þús. tonnum. Þau 6 þús. tonn eins og ég nefndi áðan voru tekin frá minni og stærri aflamarksbátum — margir þessara báta eru minni bátar sem sinna vinnslunum í sjávarbyggðum allt í kringum landið — og síðan krókaflamarksbátunum sem sannarlega veitti ekkert af þessum aflaheimildum heldur. Núna er hins vegar gert ráð fyrir því að tímabundið, í tvö ár, verði úthlutað 3 þús. tonnum, að þessi afli verði aukinn um 50% vegna þess að þetta er einstefnuloki, þ.e. menn komast inn í kerfið og það eru engar aðgangshindranir í kvóta í þeim efnum, og því þarf að auka þessar aflaheimildir. Ég spái því að menn þurfi að koma síðar með svipað frumvarp og þá verði gert ráð fyrir því að í tvö ár verði þessi 3 þús. tonn utan aflamarksins. Við erum komin með tvöfalt kerfi þar sem tveir þriðju eru teknir frá aflamarkinu en einum þriðja er haldið utan aflamarksins í tvö ár.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að miklar skerðingar voru í þorskveiðum. Nú blasir við að þorskstofninn er að rétta mjög úr kútnum og ekki hefði veitt af fyrir þá sem hafa tekið á sig miklar skerðingar að njóta þess í aflahlutdeildum þegar aflaaukning verður. Ég gæti fallist á það að pottarnir tækju álíka breytingum þannig að þeir nytu líka aukningarinnar í ákveðnu hlutfalli. En hér á hins vegar að vaða inn og koma í veg fyrir að m.a. litlir útgerðaraðilar, skuldugir í sumum tilvikum, (Forseti hringir.) njóti teknanna, en þeir þurftu að taka á sig skerðingarnar.