Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 16:57:49 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að stjórnmálamenn á vettvangi útdeili byggðakvótunum minnki hættuna á spillingu. Ég held að það minnki að minnsta kosti ekki hættuna á tortryggni, virðulegi forseti, ég held þvert á móti að það geri það og ég held að það sé enginn öfundsverður sem er í þeirri stöðu í smærri bæjarfélögum. Ég held að hann væri settur í nær ómögulega stöðu af því að allir þekkja hvað reglan þýðir. Ef tvær útgerðir eru á svæðinu, svona til einföldunar, þá þekkja menn nákvæmlega hvaða regla þýðir hvað fyrir hvora útgerðina og svo fara menn í allar tengingarnar sem eru á litlum stöðum. Ég ólst upp á litlum stað og ég veit alveg hvernig það er. Það er auðvitað yndislegt og frábært en svo sannarlega er líka hin hliðin á þeim peningi að það getur komið upp alla vega tortryggni og rígur og ýmislegt annað sem ekki er æskilegt. Ég held að við séum að búa til gósenland fyrir slíkt.

Hvort sem okkur líkar betur eða verr snýst þetta að stórum hluta annaðhvort um arðsemi eða hvort við ætlum að láta önnur sjónarmið vega meira. Menn kalla þetta byggðasjónarmið en oftar en ekki þegar farið er í þá vegferð snýst þetta upp í andhverfu sína. Helsti kosturinn við það kerfi sem við erum með, ef við berum okkur saman við aðra, eins og Gísli Kristjánsson, fréttamaður hjá RÚV, gerði þegar hann bar saman íslenskan og norskan sjávarútveg og komst að þeirri niðurstöðu að mun færri aðilar, einstaklingar og færri skip veiddu jafnmikinn afla og veiddur er í Noregi. Ergo: Þjóðin hagnaðist meira á þessu.