Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 17:27:32 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:27]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta snýst nefnilega um hvernig við nýtum þjóðarauðlind með sem sanngjörnustum hætti. Hvernig nýtur þjóðin arðs af auðlind sinni? Þetta snýst um hver fær að slá eign sinni á auðlindina. Er það ein atvinnugrein eða þjóðin í heild sinni?

Það var gott að hv. þingmaður nefndi auðlindaskýrsluna frá 2000. Ég veit að henni er sú skýrsla skyld. Þar var fyrningarleiðin nefnd á nafn í fyrsta skipti og það var ekki ómerkari maður en Jóhannes Nordal sem gerði það. Þar með varð til kveikjan að þeirri umræðu sem Samfylkingin hefur m.a. haldið mjög á lofti síðan í sambandi við nýtingu sjávarauðlindarinnar. Þetta er auðvitað lykilatriði. Hverju vilja menn ná fram með breytingum? Það er hin þjóðhagslega hagkvæmni og ef við beinum athyglinni að strandveiðifrumvarpinu sem við ræðum hér og látum hitt liggja á milli hluta er það t.d. sú viðleitni að efla atvinnu- og frumkvöðlastarf í byggðum landsins. Svo getur okkur greint á um leiðir. En markmiðið er í (Forseti hringir.) það minnsta gott.