Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 17:39:11 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:39]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ágætt að hv. þingmaður kom inn á þetta, að minna hafi verið um afskriftir af hálfu sjávarútvegsfyrirtækjanna. Af því að hér er talað um áhrifin á viðskiptabankana þá vil ég kannski setja það í samhengi við það sem Landsbankinn var að ákveða að gera fyrir helgi. Hvað sagði Landsbankinn í rökstuðningi sínum fyrir því að hann gæti farið í frekari aðgerðir til hjálpar íslenskum heimilum? Hann sagðist vera í færum til að gera það, hann hefði svigrúm til þess. Ætli það svigrúm sé enn fyrir hendi ef kostur bankans verður rýrður svo með breytingum á sjávarútvegskerfinu? Hversu mikið þrengir það að Landsbankanum og getur hann þá aðstoðað fjölskyldur í viðskiptum við bankann í þrengingum þeirra? Þetta er samhengi hlutanna. Sú undirstaða sem auðlindanýtingin er endurspeglast í því hvort menn eru í færum til að skila til baka til okkar. Það á bæði við ríkissjóð, álögur þar, og líka viðskiptabankana og þá möguleika sem þeir hafa (Forseti hringir.) til að koma með frekari aðgerðir handa heimilunum.