Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 18:00:53 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Honum var tíðrætt um arðsemina en það eru fleiri þættir í mannlegu samfélagi og eitt sem hv. þingmaður hefur haft ofarlega í huga eru mannréttindi. Ég vil þess vegna í fyrra andsvari mínu spyrja hv. þingmann, úr því honum hugnast svona illa þær tillögur sem hér liggja fyrir, með hvaða hætti hann vill bregðast við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Þar er niðurstaðan sú að með núverandi fyrirkomulagi vegum við alvarlega ekki bara að mannréttindum heldur sjálfu atvinnufrelsinu. Þó að hv. þingmanni sé jafnan ofarlega í huga arður og arðsemi í atvinnulífi hefði ég þó af málflutningi hans haldið að áherslan á frelsið og frelsi einstaklingsins gangi framar og þá ekki síst atvinnufrelsið, frelsi fólks til að bjarga sér sjálft með eigin framtaki. Ég held að þetta sé augljóslega eitthvert stærsta verkefnið í íslenskum stjórnmálum sem hefur nú í nokkur ár beðið viðunandi úrlausnar; að mæta áliti mannréttindanefndarinnar með breytingum sem tryggi að við brjótum ekki gegn grundvallarmannréttindum.

Ég verð líka að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að fórna megi einhverju af arðsemissjónarmiðunum til að tryggja jafnmikil grundvallarmannréttindi og atvinnufrelsi Íslendinga er, fólksins í landinu.