Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 18:05:14 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:05]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þá hefur komið fram hvað hv. þm. Birgir Ármannsson álítur um þetta efni. Ljóst er að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur annað álit. Ég hlýt að spyrja hv. þingmann hvort skilja beri orð hans svo að hann telji enga þörf á því að bregðast við þegar mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna, sem við eigum aðild að, kemst að þessari niðurstöðu og kallar eftir viðbrögðum.

Aðeins um arðinn. Nokkuð hefur verið rætt um hvort almenningur, eigandi auðlindarinnar, njóti auðlinda arðsins sjálfs. Bent hefur verið á það árið 2009 hafi hagnaður, eftir árlega útreikninga Hagstofunnar, verið 45 milljarðar í greininni en aðeins 3 milljarðar komið í ríkissjóð. Hér er gert ráð fyrir að þetta aukist í að minnsta kosti 5–6 milljarða. Þá má spyrja hvort hv. þingmaður telji að það eðlilega og sanngjarna breytingu að 15 kr. á kíló sé hófleg arðsemiskrafa af hálfu eiganda auðlindarinnar til sjávarútvegsins.

Síðan vildi ég líka spyrja hv. þingmann vegna þess að hann er þingmaður Reykjavíkur: Getur hann fellt sig við og telur hann það yfir höfuð koma til greina að skilgreint sé að hluti veiðigjaldsins renni til fólks á sumum stöðum á landinu en ekki öðrum? Eða hvaða augum lítur hann á þá þætti í málinu og kannski álit hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar um þau efni sem fylgdu frumvarpinu?