Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 18:12:05 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi það síðasta sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson nefndi get ég ekki í stuttu máli svarað honum hvaða breytingar ég vil gera á sjávarútvegskerfinu. Ég vil hins vegar taka það fram að ólíkt mörgum sem hafa talað í dag og gær er ég í meginatriðum nokkuð sáttur við núverandi sjávarútvegskerfi. Ég er bara nokkuð sáttur við það. Ég er því ekki þeirrar skoðunar að þörf sé á þeim róttæku breytingum sem margir hv. þingmenn tala um.

Mér er alveg ljóst að núverandi kerfi er umdeilt og ég og minn flokkur höfum verið tilbúnir til að leggja okkar af mörkum til að ná meiri sátt um kerfið. Á þeim grundvelli tók fulltrúi okkar þátt í starfi sáttanefndar á síðasta ári og skrifaði undir ákveðna málamiðlun í því sambandi, ákveðna leið til að vinna að breytingum á kerfinu með það að markmiði að ná aukinni sátt. En eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson þekkir eru þessi frumvörp víðs fjarri niðurstöðum þeirrar sáttanefndar að mati allra sem í henni sátu nema kannski fulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna. Allir aðrir eru þeirrar skoðunar að niðurstaðan sé víðs fjarri þeirri meginstefnu sem út úr starfi sáttanefndar kom. Ég væri tilbúinn að vinna að breytingum áfram á grundvelli meginstefnu hennar. Þetta held ég að sé lykilatriðið.

Hv. þingmaður spurði hvaða markmið ríkisstjórnarflokkarnir settu sér með þessu. Ég óttast að hér sé farið fram af meira kappi en forsjá. (Forseti hringir.) Viljinn til að breyta kerfinu sé yfirsterkari yfirvegaðri vinnu (Forseti hringir.) við að móta nýjar tillögur.