Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 18:28:09 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:28]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að þetta samhengi hlutanna sé mjög mikilvægt, að menn hafi það í huga þegar um þessi mál er fjallað. Við vitum að núna fyrir helgina boðaði Landsbanki Íslands frekari aðgerðir til hjálpar skuldugum heimilum. Sumir mundu nú segja að það væru orð í tíma töluð ef þær aðgerðir skila þeim árangri sem að er stefnt. Í mínum huga er ljóst að ef á sama tíma vegið er að efnahag bankans, ef þessar breytingar hefðu það í för með sér, sem ég óttast mjög, hefur það að sjálfsögðu áhrif á allt svigrúm bankans og annarra banka til að nálgast heimilin og fyrirtækin í brýnum fjárhagsþrengingum.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson hver skoðun hans sé á þessu samhengi hlutanna og hvaða afleiðingar þetta gæti síðan haft í framhaldinu, ef það er svo, sem Seðlabankinn hefur áhyggjur af, að þetta muni hafa veruleg áhrif á efnahag viðskiptabankanna þriggja.