Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 18:31:51 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:31]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað svo að bein veðsetning á kvóta hefur verið bönnuð um langan tíma. Hins vegar hefur svokölluð óbein veðsetning gengið eftir þannig að sá sem veitir lán hefur farið fram á tryggingar láni sínu til stuðnings. Ég þekki það einfaldlega af eigin rekstri, og hef reyndar heyrt það úr sjávarútveginum hvaðanæva kringum landið, að þegar menn fara til bankastofnana og eru með eignir á litlum stöðum, alveg sama hvort það er í sjávarútvegi eða öðrum greinum, hefur viðhorf bankamanna ævinlega verið þetta: Hvað geturðu veðsett annað? Áttu ekki eitthvað á höfuðborgarsvæðinu, jafnvel eins og eina kjallaraholu? eins og einn spurði. Menn leita auðvitað eftir þeim tryggingum sem þeir þurfa. Ef menn telja að eignir á einhverjum stað, bátur eða fiskvinnsluhús, sé ekki nægilega öflug trygging leita þeir auðvitað eftir frekari tryggingum.

Ég óttast að þetta geti haft verulega (Forseti hringir.) neikvæð áhrif á fjárfestingu og það þarf að skoða. Hins vegar þarf líka að takmarka þessa óbeinu (Forseti hringir.) veðsetningu þannig að menn geti ekki bæði keypt banka og tískubúðir. Það er (Forseti hringir.) allt annar handleggur.