Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 18:33:19 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:33]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má ekki skilja mig svo að ég sé talsmaður þess að menn veðsetji rekstrartæki í sjávarútvegi, hvort sem það eru skip eða veiðarfæri eða fiskvinnslur, til að eiga möguleika á að kaupa sér tískuhús. Það er ekki þannig. Hins vegar er það svo að þegar menn hefja atvinnurekstur þurfa langflestir á lánafyrirgreiðslu að halda og það er eðlilegt að þeir sem veita lánin vilji fá einhverja tryggingu fyrir því að þau verði endurgreidd. Þess vegna þurfa menn að hafa heimildir til að veðsetja. Í þessum frumvörpum er gengið býsna langt í því að banna beina og óbeina veðsetningu í sjávarútvegi. Þetta þýðir að venjulegt fólk sem vill hefja útgerð mun ekki hafa neinn möguleika á því að komast inn í greinina. Með öðrum orðum, ég fæ ekki annað séð en að verið sé að útrýma nýliðun í sjávarútvegi og útgerð (Forseti hringir.) nema fyrir þá sem hafa (Forseti hringir.) fullar hendur fjár (Forseti hringir.) fyrir. Það er slæm þróun.