Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 18:44:40 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:44]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég held að umræðan um sjávarútveg og hvernig menn leyfa sér að tala niður til þessarar atvinnugreinar, mikilvægu atvinnugreinar, veki ekki áhuga fólks, ungs fólks, á að mennta sig og fara síðan að starfa í þessari grein. Ég óttast einmitt hið gagnstæða. Og þegar við bætist að um það er veruleg óvissa, eins og kemur t.d. fram í skýrslu seðlabankastjóra að óvissan muni aukast, að þessi fyrirtæki muni hugsanlega veikjast, þá mun það auðvitað ekki greiða fyrir nýliðun.

Svo liggur skilgreiningin á nýliðun dálítið á milli skips og bryggju. Það er auðvitað ekki nýliðun að taka aflaheimildir frá einhverjum í dag sem síðan verður að leggja skipinu sínu og verða atvinnulaus og færa þær einhverjum öðrum. Það skapast engin nein ný verðmæti við það. Þetta er takmörkuð auðlind, við verðum að sætta okkur við það. Megintilgangurinn hlýtur að vera að auka arðsemi heildarinnar, bæði til þjóðarinnar og til þeirra sem starfa í greininni.