Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 19:01:37 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[19:01]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að heyra að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur áttað sig á því að Ísland er verstöð en ekki fjármálamiðstöð. Það er mikið rétt. Útvegur er elsta atvinnugrein okkar Íslendinga og á hverju skyldi hann nú hafa byggst frá örófi ef ekki einmitt strandveiðum? Það eru strandveiðar sem við erum að ræða í dag varðandi það frumvarp sem liggur fyrir og mælt hefur verið fyrir. Ég ætla ekki að mæla bót þeim annmörkum sem fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins hefur fundið á frumvarpinu. Ég tel það skyldu okkar þingmanna þegar við fáum málið inn til nefndar að laga þá annmarka. Það vald er núna komið í hendur þingsins og veldur hver á heldur. Við verðum auðvitað að leggja þessu frumvarpi gott til en ég held að það sé enginn vafi á því að markmiðið með frumvarpinu sé engu að síður að glæða atvinnu um landið, efla frumkvæði og frumkvöðulsþrótt meðal þeirra sem vilja sækja sjó og hafa af því lífsviðurværi.

Af því að hv. þingmaður gerði hér líka að umtalsefni stóra frumvarpið sem ekki hefur enn verið mælt fyrir en liggur auðvitað undir í þessari umræðu, þá ræddi hann það að í því frumvarpi og í þessari umræðu allri hefði verið vikið frá hinni svokölluðu samningaleið og rofin sú sátt sem þingmaðurinn talaði um að hefði náðst milli hagsmunaaðila og stjórnmálaflokkanna.

Nú langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvað fólst í hinni margumræddu samningaleið? Getur þingmaðurinn sagt mér um hvað sáttin var sem honum og öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins er svo tíðrætt um?