Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 19:08:19 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[19:08]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ótrúlegt að hlusta á hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, sem hefur látið sig sjávarútvegsmál nokkuð mikið varða síðan hún settist inn á þing, halda því fram að það sé eitthvert fjas þegar maður lýsir því hér yfir að sú sátt sem náðist í sáttanefndinni hafi verið svikin. (Gripið fram í.) Bíðum nú við. Enginn þeirra sem sat við það borð, fyrir utan kannski stjórnarliðana sjálfa, þó að ég efist um að hv. þm. Björn Valur Gíslason sé endilega í þeim hópi en hann á eftir að tjá sig um þessi mál, enginn þeirra er tilbúinn til að lýsa því yfir að þau frumvörp sem hér eru til umfjöllunar hafi nokkuð með þessa sátt að gera. Enginn. Það skiptir engu máli hvort það eru útgerðarmenn, sjómenn, fiskvinnslufólk, fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem tóku þátt í þessum samningaviðræðum, allir eru sammála um að við þessa frumvarpssmíð hafi verið vikið frá þeim meginlínum sem menn komu sér saman um. Það er auðvitað ástæðan fyrir því að það er engin sátt um þessi frumvörp. Það er allt upp í loft vegna þeirra frumvarpa sem hér liggja fyrir. Það er enginn ánægður með þau og það mun enginn verða ánægður með þau. Enginn. Þetta er bara svona, hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, og þetta veistu. Þetta veit hv. þingmaður

Út af stjórnarskrárákvæðunum, af því að hv. þingmaður nefndi að það væri verkefni þingsins að reyna að tjasla upp á frumvarpið til að það stæðist stjórnarskrá, ég held að það sé óvinnandi vegur. Ég held að það þurfi að endurskrifa þessar hugmyndir algjörlega frá upphafi til að þetta standist ákvæði stjórnarskrárinnar. (Gripið fram í: Uppi í Hádegismóum?)