Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 20:15:22 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:15]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú er ég eins og hv. þingmaður upprunninn í Neskaupstað og það gefur manni kannski einhvern skilning á því hvers vegna hv. þingmaður er svona eindreginn talsmaður lokaðra einokunar- og einkaleyfiskerfa eins og kvótakerfið er og þá þungu áherslu sem hann leggur á það að loka grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar og halda fyrir þá sem þar eru.

Ég hafna því algjörlega að það sé einhver forsenda fyrir auðlindarentu, ég held að það séu bara sams konar mistök og í öðrum miðstýrðum einokunar- og áætlunarbúskap. Það eru ekki slíkar leiðir sem skila okkur mestum arði. Ég spyr hv. þingmann: Hvað hefur hann á móti markaðslausnum í því að stýra aðgangi að takmarkaðri auðlind? Er það ekki algjörlega augljóst, til að mynda eins og leigupotturinn í því kerfi sem hér er verið að kynna þar sem aðilar á markaði geta keppt sín í milli um það hver er tilbúinn til að greiða hæstu auðlindarentuna, þ.e. hver treystir sér til að gera út með hagkvæmustum hætti, með mestri framlegð og arðsemi og greiða best verð fyrir þennan aðgang? Er það ekki algjörlega augljóst út frá hinum hagfræðilega vinkli að það er besta og skilvirkasta aðferðin við að tryggja góða aulindarentu, ekki lokað miðstýrt einokunarkerfi eins og hv. þingmaður er að reyna að verja hér og þá sérhagsmuni sem í því eru, heldur einmitt leið hins frjálsa markaðar að bjóða einfaldlega hin takmörkuðu gæði upp og láta framtakssama og frjálsa menn keppa um þessi atvinnuréttindi í fullu atvinnufrelsi hér í landinu?