Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 21:45:55 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:45]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að svara fyrst því síðasta sem hér kom fram lögðum við til að sá sem selur sig út úr kerfinu geti ekki komist aftur inn eða að minnsta kosti séu á því verulegar takmarkanir.

Ég heyrði líka ræðu hv. þm. Kristjáns L. Möllers. Það er rétt að samfylkingarþingmenn í Norðausturkjördæmi eiga það til að breytast í framsóknarmenn þegar þangað er komið vegna þess að meginþorri sjónarmiða Samfylkingarinnar á ekkert sérstaklega upp á pallborðið svo ekki sé talað um alla þá skerðingu sem varð í heilbrigðismálum. Ég veit að hv. þingmaður kannast við þessa umræðu.

Það sem við vildum og lögðum til varðandi okkar svokölluðu potta — þegar á heildina er litið held ég að menn rugli einhvern veginn saman pottunum okkar og pottum frumvarpsins. Við vorum að tala um að við gætum tekið inn í pottana ef það kæmi aukning en ekki eins og nú er lagt til, að þetta sé tekið af heildaraflanum. Á því er grundvallarmunur vegna þess að ef við getum ekki aukið fiskveiðikvótann en það á samt að setja í potta erum við á rangri leið.

Við nefndum það líka, og ég tel það mjög mikilvægt, að við vildum taka þessi skref afar hægt. Við vildum endurskoða þau í hvert skipti til að sjá hvort þau virkuðu í raunveruleikanum. Ég vona að ég sé búinn að svara spurningum hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar að mestu leyti en hann spyr þá aftur ef ég hef gleymt einhverju.