Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 22:09:46 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:09]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég deili skoðunum hans á þessum frumvörpum, ég tel að þau séu ekki líkleg til þess að auka arðsemi, enda snúa þau í flestu tilliti að öðrum þáttum.

Þingmaðurinn nefndi að hvatinn að breytingunum væri að tryggja eignarhaldið, það er það sem kemur fram í 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar. Nú hafa framsóknarmenn til dæmis barist fyrir því að setja slíka grein inn í stjórnarskrá í langan tíma og mér heyrðist á umræðunni í dag að það sjónarmið sé orðið ofan á í öllum flokkum að þetta þurfi að tryggja með einum eða öðrum hætti og um það séu allir orðnir sáttir. Þá er það spurningin: Af hverju er það þá ekki meginmarkmiðið og kemur fram í frumvarpinu? Af hverju eru allar hinar breytingarnar ef þetta væri nóg? Auk þess hefur reyndar verið talað um að taka þurfi til á einstaka stað.

Það er einn þáttur sem kemur líka fram í því frumvarpi sem við ræðum hér í dag og það er veiðigjaldið. Ég hef heyrt aðeins misvísandi skoðanir í afstöðu þingmanna Sjálfstæðisflokksins til þess, annars vegar til þess að veiðigjald sé lagt á, og langar mig að heyra afstöðu þingmannsins í því sambandi, og einnig til þeirra hugmynda — og nú er ég ekki að taka undir þá útfærslu sem er í frumvarpinu um að úthluta beint til þeirra sveitarfélaga þar sem kvótinn er — að úthluta hluta af auðlindagjaldinu til þeirra landshluta þar sem hagnaðurinn af auðlindinni verður til. Mig langaði líka að heyra álit þingmannsins á því.