Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 22:14:02 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:14]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir ágæta ræðu þar sem hann kominn á mörg álitamál sem snerta þetta frumvarp sem er eitt af tveimur um undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar sem snertir fiskveiðar og vinnslu sjávarafla.

Störf í sjávarútvegi og afleidd störf eru talin vera a.m.k. um 30 þúsund í landinu, 30 þúsund einstaklingar hafa með beinum eða óbeinum hætti afkomu sína af þessari mikilvægustu auðlind okkar. Og af því að hv. þingmaður hefur mjög langa þingreynslu langar mig að spyrja hvort hann muni eftir viðhlítandi málsmeðferð á málefnum sjávarútvegsins eins og hér um ræðir, því ríkisstjórnin lagði málin fram mjög seint og ætlast til þess að þingið eyði sjö dögum í að klára þessi frumvörp.

Þetta eru svo sem ekki ný vinnubrögð ef við rifjum upp þetta kjörtímabil svo ég ætlast kannski til að hv. þingmaður fari lengra aftur. Við höfum séð grundvallarbreytingar á skattkerfinu koma fram og við hv. þingmaður fengum nokkra daga í efnahags- og skattanefnd til að fara yfir þær grundvallarbreytingar á skattkerfi og skattstefnunni. Tvö ár eru að verða síðan sú framkvæmd var gerð með öllum þeim áhrifum sem hún hafði og þeim mistökum sem þá voru gerð.

Þetta minnir mann líka á annað stórt mál af svipaðri stærðargráðu og það er Icesave-málið og hvernig hnoða átti því í gegnum þingið. Ég man varla eftir því að áður fyrr hafi framkvæmdarvaldið komið inn á Alþingi með eins hranalegum hætti og ætlast til þess að Alþingi Íslendinga afgreiddi jafnviðamikið mál á jafnstuttum tíma og hér um ræðir.