Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 22:18:06 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:18]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður bendir á og ég rakti í fyrra andsvari mínu að málið snertir tugi þúsunda Íslendinga. Þess vegna vekur furðu að eiginlega enginn, ég held ég geti fullyrt það, að enginn stjórnarliði er nú á mælendaskrá. Það er bara viðburður og manni bregður við ef stjórnarliðar sjást í salnum og sitja í sætum sínum undir þessum ræðum. En það er mikil synd að heyra ekki þeirra sjónarmið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann sem hefur mikla reynslu af efnahagsmálum hvort hann hafi ekki áhyggjur af áhrifum þessara vinnubragða og frumvarpanna sem við ræðum á atvinnugreinina og fjárfestingu í atvinnugreininni, undirstöðuatvinnugrein landsins. Ljóst er að mikil óvissa mun ríkja í framhaldi af þessu og í ljósi þess að væntanlega mun taka þó nokkurn tíma að fara yfir frumvarpið sem hér liggur fyrir, þá hef ég heyrt frá aðilum í sjávarútvegi að trúlega muni mestöll fjárfesting í atvinnugreininni liggja niðri á meðan menn vita ekki hvert verður framtíðarfyrirkomulag rekstrarumhverfisins hér á landi. Menn vita ekki hvað ríkisstjórnin ætlar sér. Menn vita að ósætti er um þetta en vita ekkert hvaða ákvörðun verður tekin á morgun.

Þessi nagandi óvissa sem hangir yfir greininni veldur því að fjárfesting verður nær engin. Ég vil að hv. þingmaður svari mér því hvort forsenda síðustu kjarasamninga hafi ekki verið sú að aukin fjárfesting yrði í íslensku atvinnulífi til að knýja hagvöxtinn af stað. Hvað gerist ef lítil sem engin fjárfesting verður í undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar? Er þá ekki hætta á að forsendur kjarasamninga séu brostnar? Það væri (Forseti hringir.) mjög alvarlegt mál fyrir íslenska þjóð og íslenskan almenning.