Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 22:37:28 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:37]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Við þekkjum hvernig íslenska fiskveiðistjórnarkerfið hefur verið byggt upp á undanförnum árum. Innbyggt hefur verið í það kerfi ákveðin hagræðing og ákveðin hagræðingarkrafa sem óneitanlega hefur bitnað allverulega á atvinnulífi á mörgum stöðum í hinum dreifðu byggðum.

Nú er ég einn af þeim sem hafa talað fyrir því og rétt fram sáttarhönd að vegna þessara eiginleika kerfisins beri okkur skylda til að styðja við og efla atvinnulíf þaðan sem slík verðmæti koma. Í þessari umræðu — og vegna þess að við í stjórnarandstöðunni erum nær ein í því að tala í umræðunni — er mér ekki alveg ljóst hver stefna Sjálfstæðisflokksins er í þessum efnum vegna þess að bæði sjónarmiðin hafa komið fram hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa komið hér upp og sagt að þeir fjármunir eigi ekki að renna til þessara byggðarlaga. Í stefnu Framsóknarflokksins höfum við talað um að við eigum að verja fjármunum í rannsóknir, nýsköpun og þróun og þá í sjávarútvegi og á þessum landsvæðum. Ég man að hv. þm. Árni Johnsen kom hingað upp í dag í andsvari við hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur um þessi mál.

Mér finnst að við þurfum að taka tillit til þess hver þróunin hefur verið á undanförnum árum í sjávarútvegi. Við þurfum að ná sátt og það hefur verið mikið áfall fyrir margar byggðir hve störfum hefur fækkað vegna þessarar hagræðingar.

Ég spyr hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur: Er Sjálfstæðisflokkurinn ekki reiðubúinn að koma til móts við þau byggðarlög sem hafa misst svo mörg störf á undanförnum árum vegna þeirra hagræðingarkrafna sem eru í (Forseti hringir.) íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu?