Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 22:39:39 (0)


139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:39]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér er það ljóst að ýmsar breytingar hafa orðið í sjávarútvegi á undanförnum árum. Mér er ljóst að margar ástæður liggja þar að baki, m.a. sú tækniframþróun sem orðið hefur í sjávarútvegi sem gerir það að verkum að þar fækkar fólki. Það er öllum ljóst að fyrir nokkuð mörgum árum voru 6.000 manns þar að baki sem nú eru 2.800.

Það breytir hins vegar ekki því að stjórnvöld, bæði núverandi og fyrrverandi, hafa brugðist í því að byggja upp umhverfi og skapa tækifæri til annarrar atvinnuuppbyggingar á þeim svæðum þar sem fólki hefur fækkað í sjávarútvegi. Það er mín skoðun á þessu, virðulegur forseti, að stjórnvöld hafi þar brugðist.

Kvótakerfið eitt og sér hefur ekki gert það að verkum að fækkað hefur í hinum dreifðu byggðum landsins, ekki eitt og sér. Það eru margir aðrir samverkandi þættir og þar hafa stjórnvöld brugðist, bæði núverandi og fyrrverandi stjórnvöld, að byggja upp og koma að uppbyggingu annarra atvinnutækifæra á þeim svæðum.